Menu
Karfa 0

Um okkur

Frumkvöðullinn og fluguveiðimaðurinn Steingrímur Einarsson stofnaði fyrirtækið Fossadal ehf. árið 2007, en að baki fyrirtækinu býr m.a. 25 ára reynsla af málmsmíði. Hugmyndin var að þróa og smíða framúrskarandi fluguveiðihjól. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og verkefninu vaxið fiskur um hrygg, en í dag framleiðir fyrirtækið línu af fluguveiðihjólum undir vörumerkinu Einarsson Fly Fishing.

Stöðug þróun og endurbætur
Hugmyndin um íslenskt fluguveiðihjól kom upp árið 2004 þegar Steingrímur smíðaði fyrstu hjólin sér og sínum til skemmtunar. Steingrímur hefur stundað fluguveiðar frá blautu barnsbeini og jafnframt starfað lengi sem leiðsögumaður fyrir laxveiðimenn. Hann hafði lengi átt þann draum að hanna og smíða sitt eigið fluguveiðihjól sem henta myndi til veiða á laxi og silungi. Þar með var boltinn byrjaður að rúlla og frá fyrsta degi hefur Steingrímur unnið þrotlaust að því að þróa og endurbæta hjólið.

Með framúrskarandi hönnun og vandaðri smíði hefur Fossadal tekist að framleiða hjól sem stenst fullkomlega samanburð við það allra besta sem gerist í fluguveiðihjólum í heiminum í dag.

Tvær gerðir af fluguveiðihjólum eru framleiddar hjá Fossadal.

Plus hjólin
Plus hjólin eru létt og sterk og hafa getið sér gott orð meðal fluguveiðimanna víða um heim. Þau fást í dag í fimm stærðum og fjórum litum.

Invictus með SAB bremsukerfi
Invictus er hjól með nýstárlega bremsu sem kallast SAB eða Shock Absorbing Brake. Bremsan er mýkri en áður hefur þekkst og minnkar þannig líkurnar á að menn missi „þann stóra“. Við nýtingu þessarar tækni hafa fluguveiðihjól í fyrsta skipti verið hönnuð með heildarvirkni stangveiðibúnaðar í huga. Fossadalur hefur fengið einkaleyfi fyrir SAB hönnuninni í Bandaríkjunum og umsókn vegna einkaleyfis í Evrópu bíður afgreiðslu. 

Invictus fæst í fjórum stærðum og í svörtum lit.

Nafnamerking með laser
Boðið er uppá að fluguveiðihjólin séu merkt eigandanum með varanlegri laser merkingu. Það ásamt þeirri staðreynd að þau eru hönnuð og smíðuð á Íslandi gerir Einarsson hjólin að mjög svo eigulegum grip.

 

Heimilisfang:
Fossadalur ehf. (Einarsson Fly Fishing)
Sindragata 11
400 Ísafjörður

Vinsamlega sendið allar fyrirspurnir á netfangið sales@einarsson.com

 

Nýlegt viðtal við Steingrím Einarsson á Bylgjunni